Brain relief
afkvæmi hugsanna minna... hlust´ekki lengur á mig...


mánudagur, apríl 25, 2005  

Eftirfarandi frétt var að birtast á mbl.is

Ætlaði að skera niður kjötlæri inni á skemmtistað

Lögreglan á Ísafirði var kölluð að skemmtistað í bænum að kvöldi síðasta vetrardags en tilkynnt var um mann með hníf inni á staðnum. Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að maðurinn hugðist nota hnífinn til að skera niður hangikjötslæri sem hann hafði meðferðis og gefa fólki í kringum sig sneiðar af kjötinu.

Maðurinn ógnaði engum, en hnífurinn var stærri en lög leyfa og var hann því haldlagður. Maðurinn fékk þó að halda lærinu.

Sveitaball? Hann hefur kannski verið með uppstúf í poka og kartöflur í rassvasanum.

posted by Valþór | 11:46


föstudagur, apríl 22, 2005  

Ég las Skugga-Baldur eftir Sjón í gær. Þetta er ekki stór bók en sagan er engu að síður stór. Finnst hún í stuttu máli frábær. Mikil kúnst að búa til svona góða sögu í lítilli bók. Mjög fallegur texti, blanda af húmor og háalvöru. Mæli með að eyða einni kvöldstund í að lesa Skugga-Baldur.

posted by Valþór | 13:21


mánudagur, apríl 18, 2005  

Sniðugt með mömmur. Þær nota hræðsluáróður óspart. Tilgangurinn helgar meðalið. Samt getur þetta verið fyndið. Þær hóta t.a.m. alls kyns sjúkdómum. Ef maður gleypir tyggjó eru allar líkur á því að maður fái garnaflækju. Tyggjóið límir bara saman á manni garnirnar svo ekkert kemst í gegn og maður þarf í uppskurð. Ekki gleypa tyggjóið! Held að það sé nú alveg búið að afsanna þetta. Gangandi sönnun er t.d. vinur minn Gunnar Þór. Gunnar Þór borðar tyggjó. Ég hef séð hann klára bláan extra á hálftíma. Og þá meina ég að hafi étið draslið. Þetta gerir hann að staðaldri, borðar tyggjó… en hann hefur aldrei fengið garnaflækju. Mömmur segja manni líka að ef maður velti sér of mikið fái maður garnaflækju. Vinsæll sjúkdómur hjá mömmum. Garnirnar allar í flækju ef maður vogar sér að velta sér of mikið.

Svo er það blessuð heilahimnubólgan. Hver man ekki eftir að standa í búningsklefa eftir sund, þurrkandi á sér hárið líkt og óður væri svo maður fengi ekki heilahimnubólgu! Eins og allir vita þá færðu heilahimnubólgu ef þú ferð út í frosti með blautt hárið. Skiptir engu þó heilahimnubólga sé af völdum bakteríu eða veiru… blautt hár + frost = heilahimnubólga. Svipað gildir með lungnabólgu. Verði maður votur í fæturna án þess að hlaupa inn, þurrka sér og skipta um sokka fær maður lungnabólgu. Og í rauninni á maður það á hættu að fá lungnabólgu í hvert sinn sem maður fer út án þess að vera dúðaður frá toppi til táar, og helst í ull (eða flís í dag).

Og allt getur maður nú fengið í augun sín. Ömmur líkt og mömmur nota þetta mikið. “Passaðu þig drengur… þetta getur farið í augun á þér og þú getur orðið blindur!” Alveg sama hvað blessuð börnin leika sér með, allt kemst mögulega í augun og getur valdið blindu. Og ef það fer ekki í augun á þér þá eru allar líkur á að dótið fari í augun á einhverjum öðrum.

Jájá... eða það.

posted by Valþór | 14:08


miðvikudagur, apríl 13, 2005  

Undur og stórmerki. Á minni stuttu ævi hef ég aldrei getað étið heilan banana, þ.e. eins og hann kemur af trénu. Ég kúgast og fæ bara viðbjóð, bragðið er ekki vont en áferðin og e-ð óskilgreint fyrirbæri hafa hingað til stöðvað mig. Mig hefur samt alltaf langað til að getað borðað banana. Banani er þægilegur og hollur og það er bara e-ð heilsusamlegt við að smjatta á banana. Þetta hef ég bara ekki getað. Þangað til í gær... Kláraði minn fyrsta heila banana í gærkvöldi! Og til að toppa þetta þá át ég annan í morgun. Batnandi mönnum er víst bezt að lifa...

Ef þið hafið séð leno í gær þá verðið þið að prófa googlewhack!

posted by Valþór | 11:54


föstudagur, apríl 08, 2005  

Þriðja heimsstyrjöldin er við að bresta á á Laufásveginum. Um daginn kom leigusalinn niður í kjallara til mín til að segja mér frá fyrirætlunum nágranna míns um að reisa tvölfaldan bílskúr á lóðinni sinni. Ég vildi ekki vera með leiðindi svo ég samþykkti framkvæmdina fyrir mitt leyti :) En allir nágrannarnir eru greinilega ekki svo friðelskandi. A.m.k. ekki ef marka má stórblaðið DV sem birtir á forsíðu sinni á þriðjudaginn síðasta frétt þess efnis að forseti vor sé kominn í nágrannastríð við Steina í kók. Blaðið birtir mynd af forseta vorum þar sem hann otar fingri ásakandi í átt að annarri mynd af fyrrnefndum Steina. Fyndið. En það sem er virkilega fyndið í þessu eru rök forsetaembættisins fyrir því að Steini ætti ekki að fá að byggja blessaðan skúrinn. Gestahús forsetaembættisins er beint á móti Steina og vilja þeir forsetamenn meina að byggingin muni ógna öryggi gesta embættisins og að hún raski virðingu og ró hússins. Aha.

Ég sé fyrir mér að fréttir líkar þessari muni birtast á erlendum fréttamiðlum snemma næsta vetur:
“…the newly constructed garage bruttaly attacked the Japanese minister of agiculture as he walked out the front door of Laufasvegur 72 early this morning, leaving him with a broken pelvis, a severe concussion as well as five broken teeth. The minister was staying as a guest at the residence which is owned by the Precidency of Iceland. In a statement from the Presidency they stated that they had warned local authorities about the garage earlier this year, before its construction…”

Þeir hjá embættinu vilja líka meina að gamli bílskúrinn sem telur 24 fermetra sé alveg nóg fyrir Steina. Það sér það nú samt hver heilvita maður að 24 fermetra bílskúr dugar skammt þegar maður keyrir um á Volkswagen Touareg, Porsche 911 Turbo og Audi A8 W12 ;)

posted by Valþór | 17:13


fimmtudagur, apríl 07, 2005  

Ég horfði á uppistand með Þorsteini Guðmundssyni á föstudag. Það var alveg rífandi fyndið. Var ma.a að tala um Bónus. Það er svo mikið af ljótu fólki sem verslar í bónus. Ljótt fólk með slefandi og grenjandi börn. Snillingurinn sem hannaði merki Bónus hefur sagt… nei nei ég veit alveg hvernig fólk á eftir að versla í Bónus! Við skulum hafa merkið bleikt svín!

Eftir þetta hef ég farið að hugsa um mínar Bónus ferðir… Það er alltaf soldið skrýtið fólk í Bónus. Einkennileg stemming og maður býst einhvern veginn alltaf við því að einhver gömul kona með sjal og brúnar tennur eigi eftir að vinda sér upp að manni og úthúða manni fyrir að klára allan bixí matinn sem maður hefur ekki snert á. Og svo er það svo einkennilegt að ég versla ALLTAF það sama í bónus. Ljósrit af körfunni síðan síðast enda er vöruúrvalið stórkostlegt! ORA og einhverjar vörur með bleika svíninu um allt. Og undantekningalítið er allt sem ég kaupi fljótandi. Hef komist að því að ég borða nánast ekki fasta fæðu. Maður er bara eins og nírætt tannlaust gamalmenni með hægðatregðu (eða stíflukúk eins og dóttir vinnufélaga míns orðar það).

Svo kom ég inní Nóatún um daginn með mömmu og pabba. Í Nóatúni er allt til. Þar er ekki troðið af ljótu fólki og úrvalið er endalaust! Alls konar kjöt sem ég vissi ekki einu sinni að væri ætt eða jafnvel til! Heilu fiskarnir með haus og sporð og svínahausar og lynghænur! Í Bónus er bara hakk og ekki hakk. Og þeir í Nóatúni vita að þeir eru fannsí. Þeir eru meira segja kokkí. Svo kokkí að þeir eru með hluti sem þeir vita vel að þeir selja ekkert bara til að vera með mikið úrval. Til dæmis voru þeir með dúrían í ávaxtarekkanum. Tveggja kílóa dúrían. Dúrían er ávöxtur sem lyktar eins og þú hafir stappað saman hvítlauk og skít og látið það liggja í hita í nokkra daga en á víst að vera voða bragðgott. Dúrían er líka alsett einhvers konar þyrnum þannig að maður verður helst að vera í þykkum hönskum til að handleika það. Hell on the outside, heaven on the inside segja sumir. Davíð skólafélagi minn keypti dúrían í Tælandi og kom með uppí íbúðina okkar. Opnaði draslið og fólkið bókstaflega hljóp út. Ólíft í íbúðinni í fleiri klukkutíma á eftir. Það kaupir enginn dúrían á Íslandi! Fannsí pannsí…

Googlaði dúrían að gamni og svo virðist sem margir hafi mikinn áhuga á þessu. Sjá hér http://www.durianpalace.com/ og hér http://www.ecst.csuchico.edu/~durian/

Lag dagsins er Hungry Like The Wolf með Dur(i)an Dur(i)an.

Einn pirraður

posted by Valþór | 17:34
röfl
er að hlusta á
er að lesa
nýlesið
rotnandi