Brain relief
afkvæmi hugsanna minna... hlust´ekki lengur á mig...


mánudagur, október 30, 2006  

Limbó í limbói

Það vakti athygli mína um daginn þegar fréttist að Vatíkanið hefði áform um að leggja limbóið niður. Ekki þó hinn sívinsæla partýleik heldur það sem kallast forgarður helvítis. Óskírð börn komast ekki inn í himnaríki vegna erfðasyndarinnar og lenda í forgarði helvítis sem mun vera án kvala þó. Þetta hefur löngum valdið mörgum foreldrum innan kaþólsku kirkjunnar ama.

Þetta er náttúrulega hið mesta vesen og því ræða menn nú um að leggja þetta bara niður svo óskírð börn komist í himnaríki. Merkilegt. Ætli það séu nú ekki einhverjir fleiri vankantar á trúnni sem má sníða af? Mér þykir þetta nú líka benda til þess að trúin sé uppspuni okkar mannanna en ekki af guði gerð. Annars má geta þess í framhjáhlaupi að múslimar trúa því að öll börn séu fædd saklaus.

posted by Valþór | 20:33


sunnudagur, október 29, 2006  

Ég er búinn að vera sæmilega duglegur við sjónvarpsgláp undanfarið enda aðstæðurnar aðrar en ég er vanur og þar að auki óteljandi stöðvar í boði. Nú er svo komið að ég er húkkt á globe trekker þáttunum, sérstaklega þeim sem Ian Wright er í. Algjör helber snilld og maður dauðöfundar hann af flakkinu.

<<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>>

Svo er ég búinn að drekka fullt af bjór. Auðvitað er ég búinn að smakka nýja íslenska bjórinn. Allt þykir mér gott við hann nema nafnið; Kaldi. Ekki það að ég hafi betri uppástungu en Kaldi? En hann er þrusugóður.

<<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>>

En ég drekk ekki bara bjór. Ég drekk líka hvítvín. Ætla ekki að ræða það núna heldur er ég líka byrjaður að æfa á fullu. Búinn að mæta á æfingu alla daga vikunnar og er því undirlagður af harðsperrum. Þreytandi en stendur allt til bóta.

posted by Valþór | 19:46


fimmtudagur, október 26, 2006  

Ég hef verið ótrúlega trúr þessu útliti á síðunni. Allt frá fyrsta degi, sem var 21.okt 2002, hefur síðan litið svona út. Nú er það spurningin... á maður að breyta til eða láta það sem virkar vera? Hvað segir þú?

posted by Valþór | 15:45


miðvikudagur, október 25, 2006  

Ég er ekki maður sem er gjarn á að taka áhættur. Ég er átakanlega lítið kærulaus. Þessu hef ég haft hug á að breyta og í dag tók ég skref í þá átt. Það kostaði þó lítinn svefn, höfuðverk og hugsanaflækjur en eftir stend ég sáttur. Svo er allt annað mál hvort áhættan eigi eftir að borga sig.

Það er alltaf auðvelt að segja já því þá veit maður nákvæmlega hvað maður fær. Að segja nei finnst mér erfiðara því hver veit hvað verður þá. Held að ég sé of gjarn á að segja já og þess vegna sagði ég nei í dag.

<<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>>

Fyrir nokkrum vikum komu amma og afi til mín og spurðu hvort ég gæti skutlað þeim útá flugvöll í dag. Ég hélt það nú, atvinnulaus maðurinn. Þau eru fyndin gömlu hjónin, komin á áttræðisaldur. Þau vildu endilega að ég myndi æfa mig á jeppanum þeirra áður en ég myndi skutla þeim! Ég reyndi að draga úr því og hafði sigur að lokum og skutlaði þeim áðan, alveg óæfður. Þau fengu mig þó til að koma heim til sín til að kenna mér á bílskúrshurðaopnarann. Magnað apparat eða þannig.

<<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>>

Kláraði í gær einhverja fyndnustu bók sem ég hef lesið á ævinni. Það er ekki oft sem maður hlær upphátt við lestur. Heitir Ricky Gervais presents The World of Karl Pilkington. Samanstendur af samtölum milli þeirra og Steve Merchant en Ricky og Steve gerðu auðvitað Office og Extras. Karl vann með þeim í útvarpi og í fyrsta sinn sem hann opnaði munninn fyrir framan þá sáu þeir að þeir voru með demant í höndunum. Þættir þeirra voru gefnir út á podcast og urðu ótrúlega vinsælir.

Lesið um Karl Pilkington hér: http://www.rickygervais.com/karlpilkington.php

posted by Valþór | 14:33


fimmtudagur, október 05, 2006  

Ég er ekkert hættur að blogga. Ég er búinn að blogga fullt en það hefur bara aldrei náð á “blað”. Og þar af leiðandi er ég búinn að gleyma því öllu. Oh well…

<<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>>

Skrýtið (skrifa alltaf með ufsilon) þegar fólk brúkar ryksugur sínar að það skuli alltaf vera að ryksuga. Er ekki réttara að viðkomandi sé að ryksjúga? Suga hlýtur að sjúga. Kannski er þetta eitthvað svipað og maður skrifar brjóstsykur en býður svo fólki alltaf brjóstsyk eins og það sé svo erfitt að bæta örlitlu –ur í endann…

<<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>><<>>

Annars er það ansi merkileg upplifun að vera atvinnu- og heimilislaus. Fékk inni á Smáraflötinni og það væsir svo sem ekki um mann þar. Flutningar eru án efa með því leiðinlegra sem hægt er að stunda. Ótrúlegt hvað safnast fyrir af drasli á stuttum tíma. Ég er þó ófeiminn við að henda hlutum (Sindri – hvernig flytur þú???). Í atvinnuleysinu (sem ég skilgreini reyndar sem frí til að friða sjálfan mig) hef égkeppst við það að gera eitthvað á hverjum degi – skilja eftir eitthvað product eftir hvern dag en hugmyndirnar eru af skornum skammti. Atvinnubloggmennska er kannski málið. En nú er málið að ná sér í vinnu og þ.a.l. pening svo maður geti svo gert einhverja vitleysu. Er á leið í viðtal á morgun – jei.

posted by Valþór | 14:14
röfl
er að hlusta á
er að lesa
nýlesið
rotnandi